Nýr félagi í Fjarðabyggð

Bjarki Ármann hefur hafið störf í Fjarðabyggð.

Hann sendi okkur smá pistil til kynningar á sjálfum sér.

----

Góðan daginn

Árið er 1986. Víkingur er besta handknattleikslið á Íslandi, Fram besta knattspyrnuliðið, Maradona skorar með hendi guðs, Larry Bird og Wayne Gretzky eru upp á sig besta, Mike Tyson verður yngsti þungavigtameistarinn í hnefaleikum, Mets urðu heimsmeistarar í síðasta skipti og meira að segja Liverpool urðu meistarar á Englandi og er ég mjög stoltur yfir því að hafa fæðst á þessu merkisári í íþróttasögunni.

Bjarki Ármann Oddsson heiti ég og ólst upp í einni fallegustu og gjöfulustu sveit Íslands, Eyjafjarðarsveit.bjarki2 Ég spilaði ungur að árum knattspyrnu með hinu fornfræga félagi Samherjum en takkaskórnir fóru fljótlega upp á hilluna þar sem körfubolti átti hug minn allan. Spilaði ég lengst af með Þór en skipti tímabundið yfir í svarthvítufélögin, KR og Hött. Að lokum gafst ég svo upp á að spila leikinn og einbeitti mér alfarið að því að reyna að kenna hann, en þjálfunarreynslan spannar nú heil 15 ár. Ég sé á félagalistanum hér á FÍÆT að það eru nokkrir körfuboltamenn hér inni sem gleður mig, því ekki fer mikið fyrir þeirri íþrótt í mínu núverandi sveitarfélagi J

Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri kláraði ég Samfélags- og hagþróunarfræði frá Háskólanum á Akureyri vorið 2010 og fór þaðan í meistaranám við Háskóla Íslands og útskrifaðist ég þaðan með MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu og diplómanám í jafnréttisfræðum vorið 2013. Ég hef starfað við margt í gegnum tíðina t.a.m. kennari bæði í leik- og grunnskóla, sérfræðingur hjá Jafnréttisstofu, formaður skólanefndar Akureyrarbæjar og heil sex sumur sem starfsmaður íþróttamiðstöðva en skyndilega var sú reynsla ómetanleg þegar maður hóf störf sem íþrótta- og tómstundafulltrúi Fjarðabyggðar sem sér um rekstur FIMM sundlauga!

Annars er ég bara gríðarlega spenntur að takast á við starfið og allt sem því fylgir og hlakka til að vinna með ykkur í framtíðinni.

Bjarki Ármann Oddsson
Íþrótta- og tómstundafulltrúi
Fjarðabyggð