FRÆÐSLUEFNI OG FUNDARGERÐIR

Nú er mikið rætt um íþrótta- og æskulýðsstarfssemi sem besta leiðin sem forvarnastarf gegn áfengis- og fíkniefnum. Ég hef starfað sem íþrótta- og tómstundarfulltrúi hjá Þórshafnarhreppi ,Akranesbæ, auk þess hef ég gegnt ýmsum öðrum störfum s.s. kennari, þjálfari, skátaforingi og verið starfsmaður frjálsra félagssamtaka eins og Bandalag Ísl. Skáta, Ungmennafélags Fjölnis og Ungmennasambands Norður- Þingeyinga svo eitthvað sé nefnt. Mín reynsla hefur styrkt mig í þeirri trú að svo er.

Hvers kyns félagsstarsemi hjá ungum og öldnum hlýtur að vera eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í mannlífinu. Ég trúi því að öflugt æskulýðsstarf geti haft mjög góð áhrif til að byggja upp hollar og heilbrigðar lífsvenjur. Maðurinn er félagsvera sem þarfnast umhyggju og athygli. Það er nauðsynlegt að æskulýðsstarf sem þannig uppbyggt að sem flestir hafi eitthvað við sitt hæfi og að sá keppnisandi sem ríkir í íþróttum með verðlaunaveitingum ríki ekki um of heldur sé börnum og unglingum gert ljóst að þau eru öll jafn mikilvæg og hafi öll eitthvað til brunns að bera. Æskulýðsstarf þarf að vera fjölbreytt og umfram allt þarf að taka tillit til skoðana unglinganna sjálfra og leyfa þeim að hafa mótandi áhrif á starfið. Gefa þarf unglingum tækifæri til að starfa á jafnréttisgrundvelli með þeim sem eru eldri og reyndari en forðast að æskulýðsstarfið líkist of mikið skóla, þar sem skylda er að mæta og skipulagt er ef eftir fyrirfram settum lögum og reglum, sem börn og unglingar hafa engin áhrif og ráða engu um.

Æskulýðsstarfsemi þarf að vera í formi afþreyingar og ólík skólanum og skyldum hans. Þar má ekki ríkja veldi hinna fullorðnu heldur meira frjálsræði og afslöppuð vinnubrögð. Starfsemin þarf að vera þannig uppbyggð að hún laði fram frumkvæði barnanna og unglinganna sjálfra. Þannig að þau fái tækifæri til að öðlast sjálfsvirðingu og sjálfstraust í félagsstarfssemi sem þau móta og byggja upp sjálf. Slíkt starf þarf að vera í stöðugri endurnýjun og það þarf að taka mið að tíðarandanum þannig að sérhver kynslóð, sem þátt tekur í því, finni að hún hafi áhrif á starfsemina. Það er því nauðsynlegt þeir aðilar, sem að slíku standa, líti á sig sem leiðbeinendur og hjálparkokkar en ekki yfirboðarar þótt eflaust sé margt til í þeim málshætti sem hljóðar svo: “Betra er illt yfirvald en ekkert”. Og þennan málshátt má reyndar heimfæra og réttlæta með því að undirstrika að æskulýðsstarfsemi í einhverri mynd þarf  að vera til staðar í sérhverju sveitarfélagi á hvaða formi sem hún er. Ég er reyndar þeirra skoðunar að slík starfsemi geti aldrei verið til ills. Það hefur oft  komið í ljós í ræðum og riti þar sem drykkjumenn rekja raunir sínar að þeir minnast með lotningu þeirra ára er þeir stunduðu íþróttir, teldu, spiluðu á hljóðfæri eða eitthvað annað sem þeir rifja upp frá æskuárunum og þeir tala um að þetta gefi þeim mikið gildi eftir að þeir hafa á ný unnið bug á áfengisvanda sínum.

Ég hef bent á mikilvægi félagsstarfs fyrir einstaklinginn sem slíkan, ungan sem gamlan. Talað er um að byrgja brunninn, áður en barnið er dottið ofaní hann og það er það sem við er átt með því að nefna æskulýðsstarfsemi sem forvarnastarf. Flestum er ljóst að mikilvægt  er að börn og unglingar njóti sem mestrar umhyggju og athygli á æskuárunum, sem oft eru viðkvæmustu ár lífsins. Þau eru þá að þreifa fyrir sér og “smakka á lífinu” ef svo má að orði komast. Þau smakka þá einnig mörg hver áfengi í fyrsta sinn, og slíkt er að mörgu leiti eðlilegt. Áfengi hefur verið til frá örófi alda og fylgt mannkyninu. Það er því gamall draugur sem menn hafa þurft að glíma við í gegnum aldirnar og reyndar draugur með sínar góðu og slæmu hliðar. Áfengi er ekki með öllu illt sé það notað í hófi. Í kveðskap Hávamála er rætt um góðar og slæmar hliðar áfengi. Þar segir:

 

                        “Era svo gott sem gott kveða

                          öl alda sonum

                          því að færra veit

                          er fleira drekkur

                          sins til geðs gumi.”

 

Og síðar:          “En hitt er gott við öl

                          Að aftur heimtir

                          Hver sitt geð gumi.”

 

Það sem gott er við áfengi er að það rennur af mönnum, þótt í sumum tilfellum þurfi mikið fyrir því að hafa að láta renna af sér og á ég þar við ofdrykkju áfengis. Boðskapur Hávamála er “hóf í öllu”. Það er þarfur og góður boðskapur því ef börnum og unglingum er ekki kennt að fara með áfengi er þeim hættara við að líta á það sem eitthvað sem sé miklu merkilegra og eftirsóknarverðara en það er í raun og veru. Þjóðin á enn eftir að þroskast og breyta drykkjusiðum sínum og venjum og læra að meðhöndla vín á annan hátt en verið hefur til þessa. Boð og bönn eru varasöm. Það þarf að leyfa unglingum að smakka á áfengi ef þau girnast það og kenna þeim að umgangast það í hófi. Svo læra börn að fyrir þeim er haft. Eldri kynslóðin þarf að líta í eigin barm og vera betri fyrirmynd. Ofdrykkja eldir kynslóðarinnar og hvers kyns ólifnaður er víti til varnaðar.

 

Fíkniefnaneysla unglinga hefur ávallt verið í brennidepli síðan hin svokallaða hippakynslóð hélt innreið sína í íslenskt þjóðfélag með hassreykingum og notkun sterkari efna og lyfja. Ég get ekki talað af reynslu um notkun eða áhrif fíkniefna en marga harmsöguna hefur maður heyrt um ofnotkun á slíkum efnum. Áfengi- og fíkniefni eru til samans tvímælalaust eitt helsta böl þjóðarinnar og menn leiðast út í ofnotkun þess af ýmsum sálrænum og félagslegum ástæðum sem oft er erfitt að greina fyrr en alvarlegt ástand hefur skapast. Æskulýðsstarfsemi sem forvarnastarf er því ekki aðeins þarfleg heldur nauðsynleg og skilar sér tvímælalaust með “heilbrigðri sál í haustum líkama”.

 

StefánMár Guðmundsson, íþrótta- og tómstundarfulltrúi Þórshafnarhrepps.